Velkomin í skólann

Almennar upplýsingar.

Dalborg er fjögurra deilda leikskóli og hér starfa börn á aldrinum eins árs til sex ára í 4-9 klukkustunda vistun. Deildarnar heita, Græna deild, Rauða deild og Bláa deild og Snillingadeild, sem staðsett er í húsnæði grunnskólans. Hægt er að sækja um vistun þegar barn hefur fengið kennitölu. Leikskólinn er opinn alla virka daga frá 7.30-16.30.

Stefna leikskólans Dalborgar endurspeglist í einkunnarorðum skólans sem eru: Hreinskilni, hugrekki og trú á eigin getu.

Því við viljum senda frá okkur nemendur:

  • sem hafa hugrekki til að takast á við þau verkefni sem bíða þeirra eftirskólagöngu í Dalborg.
  • sem hafa tileinkað sér hreinskiptni í samskiptum við aðra.
  • sem hafa öðlast sjálfstraust og vilja til að auka getu sína.

Í leikskólanum er unnið út frá hugmyndafræði Howards Gardner, Diane Gossen og John Dewey. Trú okkar er sú að börnin læri í gegnum eigin reynslu og að allir geti eitthvað en enginn geti allt.

Í kjölfar samþykktar fræðslu og frístundastefnu Fjarðabyggðar, 5. júní 2009,var skipaður starfshópur sem hafði það hlutverk að kynna sér mismunandi uppeldisstefnur og koma með tillögu að stefnu fyrir skólana í Fjarðabyggð. Ákveðið var að vinna í anda uppbyggingar-stefnunnar, Uppeldi til ábyrgðar og vinna með ART. Að baki ART er sú hugmyndafræði að reiði eða „árásarhegðun“ eigi sér margvíslegar orsakir. Þrennt er þó áberandi hjá þeim sem eiga erfitt með að hemja reiði sína:

  • Slök félagsleg færni
  • Trú á að reiðin sigri allt
  • Slakur siðgæðis þroski

Rannsóknir sýna að með því að vinna markvisst og samhliða með félagsþroskann, reiðina og siðgæðisþroskann er hægt að kenna börnum og fullorðnum að temja sér reiðilaus samskipti. Við hér í leikskólanum erum hægt og bítandi að þoka okkur í átt að uppeldi til ábyrgðar.

Starfsdagar kennara eru fimm á ári og eru þeir auglýstir fyrirfram. Þeir eru nýttir í skipulagningar á starfinu, í kynnisferðir og til að sækja námskeið. Þá daga koma nemendur ekki í skólann.

Afmælisdögum nemenda eru gerð skil í leikskólanum. Á sjálfan afmælisdaginn fær barnið kórónu, sem er eign leikskólans og sungið er fyrir það afmælissöngurinn. Afmælisbarnið er svo í brennidepli þann daginn t.d með því að vera þjónn eða aðstoðarmaður kennara í matsal, fær sparidisk og glas og smá innpakkaðan glaðning frá öllum í Dalborg.

Foreldrar vinsamlegast athugið að ekki er leyfilegt að dreifa afmælisboðskortum í leikskólanum. Ef foreldra kjósa að bjóða öllum á viðkomandi deild er hægt að senda deildarstjóra/leikskólastjóra boðskortið með rafrænum hætti og það er áframsent til allra foreldra á deildinni.

Leikskólinn er starfræktur 11 mánuði á ári. Yfir sumartímann er lokað í 4 vikur.

Hverju barni skal fylgt inn á sína deild og það aðstoðað við að klæða sig úr eða í eftir þörfum. Mikilvægt er að bíða inn í fataklefa þangað til að starfsmaður er mættur inn á viðkomandi deild. Ekki er leyfilegt að leyfa börnum að fara inn á deildina áður en starfsmaður er mættur til að taka á móti börnunum. Starfsmaður skal látinn vita er barnið kemur í skólann og þegar það er sótt að skóladegi loknum. Foreldrar skrifa undir dvalarsamning þegar nemandi byrjar í skólanum. Þar er tilgreindur sá dvalartími sem nemandi á að vera í skólanum. Foreldrar eru minntir á að virða þann tíma sem samið er um. Vinnutími starfsmanna er skipulagður með tilliti til dvalarsamninga barnanna. Hægt er að sækja um viðbótartíma eða aðrar breytingar hjá leikskólastjóra. Ósk um breytingu á vistun þurfa að berast með mánaðar fyrirvara.

Allar breytingar á dvalarsamningi þurfa að berast fyrir 20. hvers mánaðar. Ef hægt verður að koma til móts við breyttan dvalarsamning munu breytingarnar taka gildi frá næstu mánaðarmótum þar á eftir og miðast við 1. hvers mánaðar.

Vinsamlegast látið vita ef barnið mætir ekki í leikskólann vegna veikinda eða af öðrum ástæðum. Hafi barn verið veikt er heimilt að óska eftir því að það taki ekki þátt í útiveru. Þá er miðað við 1 dag eftir veikindi þegar barnið hefur verið hitalaust heima í a.m.k. 1 dag og er tilbúið að taka þátt í daglegu starfi. Hafi barn verið fjarverandi vegna veikinda í a.m.k. 1 mánuð er heimilt að fella niður dvalargjöld um helming gegn framvísun læknisvottorðs. Ef barn er fjarverandi í 2 vikur samfellt eða meira fellur fæðisgjald niður, þann tíma, enda sé fjarvera tilkynnt með fyrirvara. Börnum yngri en 12 ára er ekki heimilt að sækja systkini eða vini í leikskólann.

Foreldrar og aðrir sem ganga um hliðið inn á leikskólalóðina eru beðnir um að loka því ávallt á eftir sér. Börnum er ekki heimilt að klifra upp á hliðin til að opna og loka þegar þau koma eða eru sótt. Einnig förum við fram á að bílar séu ekki skildir eftir í gangi hér við leikskólann.

Lyf eru ekki gefin í leikskólanum nema í undantekningartilvikum svo sem þegar um ofnæmislyf er að ræða eða læknir ávísar lyfi á ákveðnum tímum dags. Leikskólaplássi ber að segja upp með mánaðar fyrirvara og er miðað við 1. hvers mánaðar. Greiðsla leikskólagjalda er innheimt af Fjarðabyggð. Greitt er mánaðarlega, fyrirfram og er gjalddagi 1. hvers mánaðar og eindagi þann 30. Fari skuld fram yfir 2 mánuði er litið svo á að leikskólaplássi sé sagt lausu, og að undangenginni aðvörun frá leikskólastjóra er hægt að ráðstafa því til annarra.

Tilkynningarskylda þeirra sem afskipti hafa af börnum.

Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málefnum barna og verður í starfi sínu var við að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart. Sérstaklega er leikskólastjórum, leikskólakennurum, dagmæðrum, skólastjórum, kennurum, prestum, læknum, tannlæknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum, þroskaþjálfum og þeim sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr. Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.[1][1]

Foreldrasamstarf

Eins og fram kemur hér að ofan er það skylda kennara að láta vita ef grunur er um misbrest í aðbúnaði barna enda frumskylda okkar að hafa hag barnanna að leiðarljósi fyrst og fremst. Foreldrar bera frumábyrgð á uppeldi og velferð barna sinna en leikskólanum ber að veita foreldrum stuðning í uppeldi barna. Mikilvægt er að náið samstarf og gagnkvæmt traust skapist milli heimila og skóla. Foreldrar þekkja barn sitt best, þeir hafa þekkt það frá fæðingu og fylgst með þroskaferli þess og líðan. Leikskólakennari kynnist barni í leikskólastarfi og þekkir þroska þess, færni og viðbrögð í barnahópi. Foreldrum er skylt að tilkynna skóla breytingar á högum sínum svo sem breytt heimilisfang, símanúmer, vinnusíma, netföng og breytta hjúskaparstöðu. Mikilvægt er að foreldrar láti deildarstjóra vita um alvarleg veikindi eða dauðsfall í fjölskyldu nemanda, það gefur okkur tækifæri til að aðstoða nemanda betur og mæta hans vangaveltum og tilfinningum.

Nauðsynlegt er að börnin hafi ávallt með sér föt til skiptanna (buxur, peysu, nærföt, sokka og sokkabuxur). Aukafatnaður geymist í boxumog með því að kennarar merki við hvað vantar, er foreldrum gert auðvelt að tryggja hverju barni fatnað við hæfi. Klæðnaður barnanna þarf að miðast við að þau geti tekið þátt í öllu því starfi sem hér fer fram. Í Dalborg er m.a. unnið með leir, lím og málningu og þótt reynt sé að vernda fatnaðinn tekst það ekki alltaf. Auk þess þurfa þau að hafa viðeigandi útivistarfatnað. Mikilvægt er að foreldrar merki fatnað barna sinna. Leikskólinn tekur enga ábyrgð á fatnaði og skartgripum barnanna.

Leikskólinn skaffar hvorki bleiur né blautþurrkur og þurfa þeir foreldrar sem vilja að notaðar séu blautþurrkur á barn að koma með þær að heiman líkt og bleiur. Grisjur sem heita Medicomp eru notaðar hér í skólanum, til að þrífa bleiusvæðið.

Leikföng að heiman eru ekki leyfð nema ef kennarar auglýsi dótadag. Dót að heiman veitir börnum oft öryggiskennd en til að koma til móts við þá þörf barnsins er mjög gott að koma með myndaalbúm að heiman sem hægt er að geyma í leikskólanum. Í því geta verið myndir af barninu sjálfu, fjölskyldunni, merkilegum atburðum, gæludýrum o.s.frv. Tilgangurinn er m.a. að styrkja sjálfsmynd barnsins, efla öryggiskennd þess og síðast en ekki síst má nýta albúmin til málörvunar.

Við leikskólann starfar foreldrafélag, sem allir foreldrar fara sjálfkrafa í þegar barn þess hefur nám við leikskólann. Foreldrafélag er mikilvægur þáttur í starfi hvers skóla. Foreldrafélagið stendur fyrir ýmsum uppákomum og fleiru í þágu barnanna eins og til dæmis haustlitaferð, jólaföndur, sveitaferð, gjafir frá gestum á jólaskemmtun og fleira.

Einnig er foreldrafélagið mikilvægur þrýstihópur þegar málefni er tengjast leikskólanum og velferð barna okkar er annars vegar. Ár hvert er kosið ný stjórn sem í eru þrír til fjórir meðlimir. Fundargerðir og annað sem tengist foreldrafélaginu er hægt að lesa inná vefsíðu leikskólans.

Aðlögun

Að byrja í leikskóla er ný reynsla fyrir barnið. Kynnast þarf nýju og framandi umhverfi og því er mikilvægt að vel sé staðið að aðlöguninni í upphafi. Fyrstu dagana er barnið með foreldri/forráðamanni í leikskólanum, það veitir barninu öryggiskennd og um leið kynnist það og foreldrið/forráðamaður starfsemi deildarinnar og leikskólans. Að byrja í leikskóla: Aðlögun er sá tími sem ný börn kynnast kennurum, öðrum börnum, og húsakynnum skólans. Aðlögun er ekki einungis aðlögun fyrir börnin heldur einnig tími fyrir foreldra og kennara til þess að kynnast og virða fyrir sér uppeldisaðferðir heima og í skólanum. Með góðum aðlögunartíma aukast tengslin milli foreldra og kennara og þá mun hið sameiginlega uppeldisstarf ganga betur. Í aðlögun skólans er unnið eftir hugmyndum um þátttökuaðlögun. Foreldrar eru með börnunum inn á deild allan tímann í 2 ½ dag. Það sem felst í starfi þeirra þessa daga er að aðstoða barnið sitt í morgunmat/hádegismat og nónhressingu, klæða það út/inn, skipta á barninu, koma því í svefn og vera til staðar. Þessa daga eru kennarar meira sem áhorfendur en eru að sjálfsögðu með foreldrum í þessu ferli, bera ábyrgð á öllu dagskipulagi og deila út verkefnum. Þátttökuaðlögun byggir m.a. á þeirri trú að foreldrar smiti eigin öryggiskennd, forvitni og spennu yfir nýjum aðstæðum til barna sinna. Þegar foreldrar eru fullir þátttakendur frá fyrsta degi aðlögunar öðlast þeir öryggi um skipulag skólans og sjá kennara í verki. Þeir kynnast ekki bara kennurum heldur öðrum börnum og foreldrum. Foreldrar eru beðnir að sækja börnin snemma fyrstu viku eftir aðlögun til þess að koma í veg fyrir að þau verði óörugg. Foreldrar geta alltaf hringt í skólann til þess að spyrja um börnin sín og eins munu kennarar hringja í foreldra ef þörf krefur.

Viðtöl:

Boðað er til foreldraviðtala árlega og eru þau á vormisseri. Þar er farið yfir þroskaþætti og líðan barnsins í leikskólanum. Haldinn er einn stór foreldrafundur á haustin. Einnig gefst kostur á að ræða við kennara á öðrum tíma sé þess óskað.

Farið er með allar upplýsingar um barnið sem trúnaðarmál[1][1] Barnarverndarlög 17 gr.